ÍR bar sigur úr býtum í stigakeppninni á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem haldið var á Akureyri um helgina og lauk í dag.
ÍR-ingar hlutu 79 stig í heildina, næst komu FH-ingar með 53 stig og Blikar í þriðja sæti með 24 stig.
Erfiðar aðstæður voru á Akureyri vegna veðurs, raunar snjóaði fyrir norðan í dag. Af þeim ástæðum ákvað Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir sem eygir enn von um sæti á Ólympíuleikunum að keppa ekki í 100 metra hlaupi kvenna af ótta við að meiðast. Helga Margrét Haraldóttir úr ÍR var fljótust í greininni á 12,56 sekúndum.